Gunnlaugssaga sýnd í Héðinsminni

Gunnlaugssaga Ormstungu
Gunnlaugssaga Ormstungu

Margar góðar sögur eru til og má segja að Gunnlaugs saga sé ein þeirra. 

Kjarni sögunnar er draumur Þorsteins Egilssonar um Helgu og vonbiðla hennar. Að mörgu leyti dæmigerð frásögn um tilhlökkun, sorg og gleði fólks sem gæti átt við á ýmsum tímum. Örlögin virðast ráðin strax í upphafi en  vona má að allt fari þó vel. Svo er þó ekki. Eftir lesturinn má velta því fyrir sér hversu mikið draumar segi fyrir um framtíðina og hvort þeir séu búnir til eftir atburðina til þess að skýra það sem gerðist. Að sinni verður ekki skorið úr um hvort er líklegra. 

 Nemendur 8.bekkjar lásu söguna í vetur, eins og lög gera ráð fyrir, og fjölluðu um hana á ýmsa vegu. Úr varð að útbúin var leikgerð sem var svo sett upp í Héðinsminni. Þar gafst fólki kostur á að sjá með eigin augum þær persónur sem við sögu komu í Gunnlaugs sögu og fá innsýn í það hvernig líf fólks. Nokkur fjöldi fólks kom við sögu, enda barst leikurinn víða um lönd og sást þar hvernig Íslendingum vegnaði á erlendri grundu fyrr á tímum. Gestir fengu þar tækifæri til þess að velta því fyrir sér hversu mikið hefði breyst í daglegu lífi og í samskiptamynstri barna og foreldra á síðustu þúsund árum. 

Sýningar voru tvær þann 14. mars og eftir sýningarnar fengu gestir hressingu og gafst tóm til þess að ræða stuttlega við leikendur um þennan horfna heim sem er þó alltaf innan seilingar og býður upp á vangaveltur um lífið sem er eilíft kraftaverk.