Skólahald á tímum COVID-19

Skólastarf er hefðbundið eins og því er við komið vegna takmarkana í reglugerð nr. 958/2020 um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar.

Allt kapp er lagt á að dagskrá og skóladagur nemenda raskist sem minnst. Ekki er þó hjá því komist að einstaka viðburðir og dagskrá raskist eða falli niður sem í eðlilegu árferði væri hluti af hefðbundnu starfi.

Starfsfólk leggur áherslu á að gera sitt ýtrasta til að viðhalda góðum sóttvörnum í skólanum.  Búið er að efla þrif og sóttvarnir og hefur hlutverk starfsfólks sem sinnir þrifum í skólanum aldrei verið eins mikilvægt og nú. Góðar venjur hafa skapast varðandi handþvott og sótthreinsun við komu í skólann, eftir frímínútur, fyrir mat og svo oft sem þurfa þykir.

Varúðarráðstafanir í skólanum eru samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda sem sett hafa verið fram í Leiðarljós í starfi grunnskóla á hættustigi vegna COVID-19

 Aðgengi utanaðkomandi að skólahúsnæðinu er takmarkað. Foreldrar/forsjáraðilar eru beðnir að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til.

Varmahlíðarskóla er ekki skipt upp í sóttvarnarhólf heldur er unnið út frá því í okkar skólastærð að skólinn sé eitt sóttvarnarhólf. Aðrar ráðstafanir hefðu í för með sér skerðingu á skólastarfi og/eða þjónustu skólans.

Ef upp kemur smit í skólanum fer smitrakning í gang. Þá megum við vænta þess að allur skólinn fari í úrvinnslusóttkví sem getur staðið yfir í allt að tvo til fjóra daga. Á þeim tíma er verið að rekja smit og hafa samband við þá sem þurfa að fara í sóttkví. Að lokinni úrvinnslusóttkví kemur í ljós hverjir þurfa að fara í sóttkví.

Ef smit kemur upp, verður séð til þess að foreldrar séu vel upplýstir. Við notum til þess Mentor tölvupóst og/eða sms auk annarra leiða eins og þarf s.s. heimasíðu skólans og fésbókarsíðu. Það er afar mikilvægt að foreldrar, nemendur og starfsfólk upplifi öryggi og viti að í Varmahlíðarskóla er vel gætt að sóttvörnum.

Nemendur og starfsfólk eiga ekki að mæta í skólann ef þau eru með kvef, hósta og að minnsta kosti eitt af eftirtöldum einkennum til viðbótar: slappleika, hita, höfuðverki, beinverki, þreytu, kviðverki og/niðurgang. Miðað er við að skólabörn skuli vera hitalaus í a.m.k. einn sólahring áður en þau snúa aftur í skólann eftir veikindi. 

 Í haust var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing um leiðarljós í skólastarfi á tímum COVID-19 undir heitinu Stöndum vörð um skólastarf. Þar kemur fram að aðilar eru sammála um mikilvægi þess að skólastarf fari fram með eins hefðbundnum hætti og frekast er unnt. Undir þetta ritar mennta- og menningarmálaráðherra, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, formaður Kennarasambands Íslands og formaður Grunns- félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa.