Almennar skólareglur

Skólareglur Varmahlíðarskóla

Skólareglur Varmahlíðarskóla eru unnar í samræmi við lög um grunnskóla (nr. 91/2008, 30. grein) og reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Þar er kveðið á um að grunnskólar skuli setja sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, þannig að viðbrögð og úrræði stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda.

Í reglugerð um ábyrgð og skyldur segir m.a. ,,Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.” Skólareglur gilda í skólanum, íþróttahúsi, sundlaug, félagsstarfi, skólabílum og í öllum ferðum á vegum skólans.

Umsjónarkennarar fjalla um skólareglurnar, þýðingu þeirra og hlutverk með nemendum sínum eins oft og þurfa þykir. Stöðugt er unnið að því að bæta og viðhalda jákvæðum aga í öllu starfi með það að markmið að skólastarfið sé skilvirkt og farsælt.

Almennar skólareglur Varmahlíðarskóla

Námið

Við berum ábyrgð á eigin námi og gerum okkar besta í starfi og leik.

Við mætum stundvíslega í allar kennslustundir, undirbúin og með viðeigandi gögn.

Við notum snjalltæki (síma/spjaldtölvur) í samráði við kennara og starfsfólk.

Foreldrar/forsjáraðilar tilkynna forföll tímanlega til skóla og skólabílstjóra.

Samskipti

Við berum ábyrgð á eigin framkomu og samskiptum, þ.m.t. rafrænum samskiptum.

Við berum virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum og sýnum sanngirni í samskiptum.

Við hlítum fyrirmælum kennara og annars starfsfólks.

Við sýnum engum ofbeldi hvort sem er andlegt eða líkamlegt.

Heilbrigði

Við tileinkum okkur hollar lífsvenjur.

Við neytum ekki sælgætis eða gosdrykkja á skólatíma.

Við nýtum frímínútur til útiveru og klæðumst eftir veðri. Útivera er frjálst val fyrir 8.-10. bekk.

Við notum ekki tóbak, áfengi eða önnur vímuefni.

Umgengni

Við göngum snyrtilega um skólann og berum virðingu fyrir eigum hans og annarra.

Við sitjum til borðs í matsal skólans á matmálstímum og þar notum við ekki snjalltæki.

Við geymum yfirhafnir og útiskó í anddyri og notum ekki innanhúss.

Við yfirgefum ekki skólalóð á skólatíma án leyfis.

Við förum í biðröð við skólabíl, spennum öryggisbelti og sitjum kyrr í sætum okkar á meðan bíllinn er á ferð.

Það þarf leyfi kennara eða skólayfirvalda til að taka myndir, hljóð eða myndskeið. Gildir það í öllu skólastarfi og hvar sem farið er á vegum skólans.

  • Hver nemandi ber ábyrgð á þeim verðmætum sem hann kemur með í skólann.

  • Hver nemandi er ábyrgur fyrir því tjóni sem hann kann að valda á eigum annarra nemenda, starfsfólks eða skólans.

Úrvinnsla agabrota og viðurlög

Viðbrögð við brotum á skólareglum eru til þess fallin að stuðla að jákvæðum skólabrag, bættri hegðun nemenda og aukinni ábyrgð. Það er sameiginlegt verkefni skólans og foreldra/forsjáraðila að standa vel að úrvinnslu agabrota. Viðurlög miðast fyrst og fremst við það að þau hjálpi nemandanum að bæta hegðun sína eða stöðu. Viðurlögum er beitt eftir aðstæðum, eðli og alvarleika brots. Agabrot og viðurlög skulu skráð í Mentor og birt foreldrum/forsjáraðilum.

Brjóti nemandi reglur skólans, truflar kennslu ítrekað eða er sjálfum sér og/eða öðrum til vandræða skal eftirfarandi ráðum beitt.

1)    Nemandi fær tiltal og hvatningu um að bæta sig. Starfsfólk kemur upplýsingum til umsjónarkennara eftir því sem við á.

2)    Umsjónarkennari ræðir formlega við nemandann um málið, hefur samband við foreldra/forsjáraðila og upplýsir um málið. Samskiptin skulu skráð í Mentor.

3)    Sé nemanda vísað úr kennslustund fer hann á skrifstofu skólans og bíður við ritaraaðstöðu eftir þeim kennara sem málið varðar. Sama á við ef nemandi sýnir óviðunandi hegðun utan kennslustunda. Samskiptin skulu skráð í Mentor.

4)    Skólastjóri ræðir við nemanda og/eða foreldra/forsjáraðila. Samskiptin skulu skráð í Mentor.

5)    Umsjónarkennari boðar foreldra/forsjáraðila og nemanda til fundar með skólastjórnendum og/eða öðrum kennurum ef með þarf. Hvatt er til umbóta, fundargerð er skráð og  fundarmenn samþykkja hana. Ákvarðanir sem teknar eru á fundinum eru skráðar í Mentor.

6)    Í samstarfi við foreldra/forsjáraðila er unnið að bættri hegðun nemanda með viðurlögum s.s.

- foreldrar sitja kennslustundir tímabundið

- nemandi tekinn tímabundið úr aðstæðum

- nemandi fær fylgdarmann (starfsmann eða foreldra) í frímínútur eða kennslustundir

- nemandi aðskilinn frá bekkjarfélögum sínum, vinnur í einveru (í umsjá starfsmanns).

7)    Skólastjóri tekur málið til umfjöllunar á nemendaverndarráðsfundi ef ástæða er til. Leitað er úrræða/aðstoðar sérfræðinga.

8)    Sérstakar aðgerðir í samráði við skólayfirvöld, s.s. tímabundin brottvísun úr skóla eða samræmdar aðgerðir skv. 14. grein grunnskólalaga nr. 91/2008.

Brot getur verið þess eðlis að þetta ferli eigi ekki við og grípa þurfi til alvarlegra viðurlaga fyrr.

Hafi nemandi hegðað sér með þeim hætti að erfitt sé fyrir starfsmenn skólans að treysta honum til að fylgja reglum verður honum mögulega meinuð þátttaka í skólaferð eða óskað eftir því að foreldri komi með í ferðina.

Nemandi sem brýtur skólareglur eða almenn lög á ferðalagi á vegum skólans verður sendur heim á kostnað foreldra.

 

Unnið og uppfært í febrúar 2016.