Bangsadagurinn

Á bangsadegi í Varmahlíðarskóla eru bangsar boðnir velkomnir í skólann. Yngstu nemendur fara á bókasafnið og hlusta á bangsasögu. Ýmsar sögur eru lesnar um bjarndýr, Paddington, Bangsímon og Róbert bangsa. Jafnvel verða líka rifjaðir upp leikir sem minna á bangsa.

Alþjóðlegi bangsadagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Theodore Roosevelt, fyrrum bandaríkjaforseta. Teddy, eins og hann var gjarnan kallaður, var fæddur þann 27. Október 1858, en Teddy er enska orðið yfir bangsa.

Sagan segir að Roosevelt hafi verið mikill skotveiðimaður, en dag einn þegar hann var á bjarnarveiðum aumkaði hann sig yfir litlum bjarnarhúni og sleppti honum lausum í stað þess að skjóta hann. Washington Post birti skopmynd af atvikinu sem vakti mikla athygli um allan heim. Búðareigandi einn í New York borg heillaðist af sögunni og bjó til leikfangabangsa í kjölfarið sem hann kallaði Bangsann hans Teddy. Það er skemmst frá því að segja að leikfangabangsarnir seldust eins og heitar lummur og enn í dag eru bangsar eða teddy-bears, eitt vinsælasta leikfang heims.