Listalestin - unglingastig

Miðvikudaginn og fimmtudaginn, 27. - 28. apríl, verður óhefðbundið skólastarf í Skagafirði. Allir nemendur í 8. - 10. bekk grunnskólanna þriggja í Skagafirði munu hitta listafólk frá Listaháskóla Íslands og vinna saman að Listalestinni í Varmahlíð. Nemendur munu vinna saman tvo daga í hópum, í þverfaglegum vinnusmiðjum, þar sem áhersla verður lögð á samruna listgreina. Með leiðsögn fara listnemar úr listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Listalest LHÍ er einn af viðburðum List fyrir alla og höfum við beðið þess með eftirvæntingu að fá lestina í Skagafjörðinn. Verkefnið er mótað og þróað í samstarfi við kennara og starfsfólk í Skagafirði.

Í lokin verða afurðir vinnusmiðjanna settar upp í glæsilega listasýningu í Menningarhúsinu Miðgarði, undir leiðsögn sýningarstjórans Siggu Bjargar Sigurðardóttur.

Sýningin opnar við hátíðlega athöfn, klukkan 17:00, fimmtudaginn 28. apríl. Allir eru hjartanlega velkomnir. Sýningin er einn af viðburðum sæluviku 2022.

Til að svona ævintýri geti orðið að veruleika þarf heilmikið skipulag, vegna rútuferða, hópaskiptinga, aðfanga og alls sem þessu tilheyrir. Skóladagarnir verða óhefðbundnir og venjulegar tímasetningar raskast. Dagskráin er eftirfarandi:

miðvikudagur 27. apríl:

Nemendur fá morgunmat og hádegisverð í Varmahlíðarskóla

kl. 8:30 mæting í skóla

kl. 9:00 -14:00 Vinnusmiðjur í Varmahlíðarskóla, Miðgarði og úti.

kl. 14:00 Heimferð (rúta).

fimmtudagur 28. apríl:

Nemendur fá morgunmat, hádegisverð og kaffihressingu í Varmahlíðarskóla

kl. 8:30 mæting í skóla

kl. 9:00 -12:00 Vinnusmiðjur í Varmahlíðarskóla, Miðgarði og úti.

kl. 12:00-13:00 Hádegisverður

kl. 13:00-17:00 Blönduð dagskrá og árgangaskipt samvera. Ratleikur, sundpartý, leikir í íþróttahúsi og spil.

kl. 17:00 Opnun sýningar í Miðgarði

kl. 17:40 Heimferð (rúta eða nemendur fara heim með foreldrum eftir sýningu).

Til móts við langan skóladag á fimmtudaginn, fá þeir nemendur unglingastigs sem taka virkan þátt í Listalestinni, frí í skólanum föstudaginn 29. apríl. Fimmtudagurinn telst þá sem tvöfaldur skóladagur.

Hér má lesa nánar um Listalestina og sjá umfjöllun Landans um Listalestina frá 2018

Athygli skal vakin á því að vinnusmiðjur Listalestarinnar verða myndaðar, það verður upptökumaður á svæðinu sem tekur upp myndskeið til þess að gera fallega heimild um vinnuferlið. Klippt verður saman stutt video sem verður birt á vefsíðu List fyrir alla.

ATH! Ef foreldrar/forsjáraðilar vilja ekki að börn þeirra sjáist í mynd, þarf að upplýsa um það með tölvupósti til skóla.

Með tilhlökkun og von um góða samveru og skapandi listavinnu.

Starfsfólk grunnskólanna í Skagafirði,

Listnemendur LHÍ,

List fyrir alla.