Árshátíð yngri nemenda

Fimmtudaginn 21.mars var árshátíð yngri nemenda haldin í Miðgarði. Þar voru sýnd þrjú verk. Hið fyrsta nefnist Úlfar ævintýranna og fjallar eins og nafnið bendir til um þá ógn sem úlfar eru og hvað gerist þegar fólk er hrætt að óþörfu með aðsteðjandi ógn. Það verk fluttu nemendur í 1.-4.bekk.  Þar á eftir var komið að nemendum í 5. bekk. Þeirra verk var Vakað á jólanótt. Þó að jólin séu liðin koma þau alltaf aftur og því er rétt að rifja þau upp reglulega og þá spennu sem fylgir þeim jafnt sem vorinu. 

Í báðum leikþáttunum var einnig nokkur söngur og annaðist Helga Rós Indriðadóttir undirleik. Leikstjórn þessara þátta var í höndum Söru Gísladóttur. 

Eftir þessa þætti var kaffihlé og gafst gestum þá kostur á því að ræða málin, rifja upp úlfasögur, jólasögur sem og aðrar, auk þess að velta því fyrir sér hvort vorið væri rétt ókomið. Heyra mátti óma lágt: Aftur kemur vor í dal, enda þótt hríðin væri rétt að skella á. 

Þegar kaffið hafði verið drukkið sýndu nemendur í 6.-7.bekk verkið Ævintýrakistuna í leikstjórn Kristvinu Gísladóttur. Þar er fjallað um stígvélaða köttinn, konungsríki, svik, töfra og fleira sem við sögu kemur í dæmigerðu ævintýri. Verkinu lauk með því að nemendur sungu lagið Ævintýrin enn gerast. Vissulega geta ævintýri verið af ýmsum toga. Eitt af því er að komast fyrr í páskafrí vegna veðurs. Það vissi þó enginn á þeirri stundu að um leið og lagið hafði verið sungið voru nemendur komnir í páskafrí því að skólahald féll niður daginn eftir vegna veðurs.

Vilji einhver sjá sýninguna má nálgast hana hér.