30.01.2026
Markmið verkefnisins er að lyfta verkum barna og sýna þeim hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Einnig að auka áhuga barna á sögugerð á fjölbreyttu formi og sýna börnum að hverju hugmyndir þeirra geta orðið.
Á haustin geta börn í 3. - 7. bekk sent inn í flokkunum: Lag og texti, leikritahandrit, smásögur og stuttmyndahandrit. Dómnefnd fær afhendar innsendingarnar án persónurekjanlegra upplýsinga og velur í hverjum flokki verk sem eru unnin áfram af fagfólki í samstarfi við börnin.
Í ár var smásaga eftir Árdísi Heklu Pétursdóttur í 3. bekk valin áfram ásamt 17 öðrum smásögum og óskum við henni innilega til hamingju með árangurinn. Hún fær tækifæri til að vinna áfram með söguna sína hjá ritstjórum og verður sagan svo gefin út, ásamt hinum sögunum, í bókinni Risastórar smásögur.
Lesa meira
30.01.2026
Nemendur 4.-5. bekkjar Varmahlíðarskóla fóru í vettvangsferð í Málmey SK1 á Sauðárkrók. Áhuginn var mikill og Davíð Þór Helgason, annar stýrimaður, fór með nemendum um skipið og sýndi þeim stýrishúsið, fiskvinnsluna og björgunarbúnað.
Lesa meira
28.01.2026
Þorrablót eru gömul hefð sem var vakin aftur til lífsins á 19. öld. Þá kemur fólk saman, borðar góðan mat, syngur og skemmtir sér til að stytta biðina eftir vorinu.
Maturinn sem við borðum á þorrablótum er í raun geymsluaðferðir forfeðra okkar. Áður en ísskápar voru fundnir upp þurfti að geyma matinn í salti eða súr (mysu).
Þorri er fjórði mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann byrjar alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar (á tímabilinu 19. til 25. janúar).
Fyrsti dagur þorra er Bóndadagur. Í gamla daga var það siður bænda að bjóða þorra velkominn með því að fara út, klæddir í aðeins eina brókarskálm, og hoppa í kringum bæinn. Spurning hvort einhverjir nýti þennan gamla sið enn í dag.
Í dag, 28. janúar, var haldið þorrablót hjá okkur. Þá komu allir saman í matsalinn, sungu fjögur lög saman og borðuðu svo góðan þorramat og var gaman að fylgjast með hversu duglegir nemendur voru að smakka þorramatinn. Einnig var gamaldags fatnaður hafður í hávegum í dag og mættu nemendur og starfsfólk í hinum ýmsu fötum sem tengjast gömlum tímum.
Lesa meira
22.01.2026
Nemendur í 5.-7.bekk unnu saman í útikennsluverkefni í gær. Verkefnið var að hanna og búa til skutlur. Nemendur unnu saman í hópum og var byrjað inni á því að búa til skutlurnar og gera þær tilbúnar fyrir flug. Síðan var farið út fyrir skólann og þar reyndu nemendur að láta skutlurnar fljúga sem lengst. Tímataka og lengdarmælingar voru hafðar til hliðsjónar til að finna út hver færi lengst. Notast var við spjaldtölvur við tímatöku og málbönd við lengdarmælingar, en þar reyndi þó nokkuð á reikningshæfni nemenda. Það þótti líka mjög jákvætt að skutlurnar færu snúning, en þar var hægt að ná sér í aukastig. Í lokin var boðið upp á dýrindis kakó og piparkökur sem nemendum þótti nú ekki amalegt að fá. Í þessu verkefni reyndi á samvinnu, hugmyndaflug, stærðfræði og hönnun.
Lesa meira
08.01.2026
Hefur þú einhvern tímann vaknað sveitt(ur) eftir draum sem var svo raunverulegur að hann fylgdi þér langt fram á dag?
Martraðir geta verið skrýtnar, fyndnar, óþægilegar og stundum óþægilega kunnuglegar. Þær birtast oft þegar síst skyldi – og skilja eftir sig spurningar, ónotatilfinningu og jafnvel hlátur þegar maður hugsar til baka.
Úr slíkum draumum sprettur leikritið Ógleymanlega martröðin, ný sýning sett upp af nemendum í 8.–10. bekk. Í verkinu fléttast saman óvæntar uppákomur og ýktar aðstæður. Handritið er frumsamið af nemendum í 10. bekk.
Handritið er bæði spennandi og skemmtilegt, þar sem draumar og veruleiki renna saman á óvæntan hátt. Nemendur hafa unnið verkið frá grunni með mikilli sköpun, hugmyndaflugi og leikgleði – og útkoman er martröð sem gleymist ekki í bráð.
Við bjóðum alla hjartanlega velkomna að upplifa Ógleymanlega martröð föstudaginn 16. janúar kl.20 í Miðgarði.
Lesa meira
07.01.2026
Gleðilegt nýtt ár!
Nú er skólastarfið hafið á ný eftir gott jólafrí. Næstu dagar munu litast mikið af undirbúningi fyrir árshátíð unglingastigs sem haldin verður í Miðgarði föstudaginn 16. janúar næstkomandi.
Lesa meira
20.12.2025
Við sendum nemendum, foreldrum, starfsfólki og öllum vinum skólans okkar hlýjar og kærleiksríkar jólakveðjur.
Á aðventunni gefst tækifæri til að staldra við, gleðjast saman og njóta þess sem skiptir mestu máli – samveru, hlýju og gleði.
Við þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Megið þið eiga notalega jólahátíð.
Skólinn hefst aftur eftir jólafrí mánudaginn 5. janúar kl. 10.
Gleðileg jól!
Lesa meira
18.12.2025
Föstudaginn 12. des. sl. fengu nemendur 10.bekkjar að spreyta sig við að baka og steikja danskt jólabakkelsi. Tilefnið var að brjóta aðeins upp dönskukennsluna á aðventu.
Nemendur fóru inn á danska baksturssíðu og völdu sér uppskriftir. Skilyrðið var að það væru danskar uppskriftir af hefðbundnu dönsku bakkelsi og nemendur læsu uppskriftir og leiðbeiningar á dönsku. Baksturinn þótti heppnast vel og voru allir ánægðir með afraksturinn.
Meðal þess sem bakað var voru vanillukransar, danskar kleinur og súkkulaðibitakökur.
Var Kristvina Gísladóttir nemendum og umsjónarkennara til ráðlegginga og aðstoðar. Er henni þakkað kærlega fyrir aðstoðina.
Lesa meira
17.12.2025
Föstudaginn 12. desember sl. var Söngkeppni Friðar haldin í Miðgarði - fyrir fullum sal.
Á meðal þeirra níu atriða sem flutt voru, áttu þær Ólöf Helga og Sigurbjörg Svandís það sem lenti í þriðja sæti.
Þær stöllur fluttu lagið The night we met með Lord Huron - sem þær sungu raddað.
Óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Lesa meira
17.12.2025
Það er eitthvað einstaklega notalegt og dularfullt við það að fara í rökkurgöngu á þessum árstíma þegar myrkið er allsráðandi og jólin nálgast.
Nemendur í 1. til 10. bekk og starfsfólk skólans áttu eftirminnilega stund þegar haldið var í rökkurgöngu í Glaumbæ, gamlan torfbæ sem geymir ríka sögu. Þar fengum við að upplifa sannkallað tímaflakk og sjá hvernig lífið var í bænum á aðventunni í gamla daga. Starfsfólk Glaumbæjarsafns tók frábærlega á móti hópnum og bauð upp á fjölbreytta dagskrá sem höfðaði til allra aldurshópa.
Nemendur fengu að kynnast hvernig tólgarkerti voru búin til, sem var ómissandi hluti af myrku skammdegi, fróðleik um hvernig matur var eldaður í gamla daga, fengu tækifæri til að smakka tvíreykt hangikjöt og hlýddu á fróðar sögur um gamlar íslenskar jólahefðir. Svo var notaleg stund þar sem sköpunargleðin réð ríkjum þar sem nemendur fengu að skreyta piparkökur og gátu hitað sig á heitu súkkulaði í Áshúsi. Ferðin var ekki aðeins skemmtileg heldur einnig ómetanleg viðbót við kennsluna, sem veitti nemendum dýrmæta innsýn í íslenskan menningararf. Skólinn þakkar kærlega starfsfólki Glaumbæjarsafns fyrir frábærar móttökur og ógleymanlega heimsókn!
Lesa meira