Þegar dimman tekur völd færist athyglin smám saman á sögur af ýmsu tagi. Oft er talað um rökkursögur sem gleðja fólk eða veita ímyndunaraflinu lausan tauminn. Hversdagslegir viðburðir geta orðið að söguefni og næsta nágrenni verður oft að ævintýraheimi þegar dimman dettur á.
Þegar langt var liðið á nóvembermánuð, nánar tiltekið þann 24., fóru nemendur í 1.-5.b í ferðalag, þó ekki langferð, heldur út í Glaumbæ í svokallaða söguferð. Ferðin hafði verið undirbúin með þeim hætti að bókin Vetrardagur í Glaumbæ var lesin og fengu nemendur þannig innsýn í horfinn heim sem lifnar svo við á síðum bókarinnar. Enn betri tenging við efnið fékkst með heimsókn á staðinn og gátu nemendur þannig gert sér í hugarlund líf fólks á þessum tíma og fengu þeir tækifæri til þess að setja sig í spor þeirra sem sagt var frá.
Ævintýraferðir sem þessar, eða söguferðir eru kærkomin viðbót við lesturinn, enda færist það stöðugt í vöxt að fólk ferðist á söguslóðir þeirra bóka sem það les og veitir það oft góðan skilning á hugsunum persóna og getur skýrt þær ákvarðanir sem þær tóku í bókunum og getur þetta því verið hin besta æfing í því að setja sig í spor annarra.