Fyrstu skóladagarnir í samkomubanni

Fyrstu þrjá skóladaga í samkomubanni hefur verið afskaplega áhugavert að fylgjast með kennslu í Varmahlíðarskóla við gjörbreyttar aðstæður.  Gróskan í kennsluháttum er mikil og má þar nefna að nemendur og kennari sem nú eru heima í fjarvinnu taka virkan þátt í skólastarfinu með hjálp tækninnar m.a. með myndsamtölum. Það virðist sem samstaða sé afskaplega góð bæði meðal skólafólks og foreldra. Allir eru að leggjast á eitt við að láta þetta ganga sem best. Fyrir það er vert að þakka.  

Allir hópar hafa komið í skólann í vikunni. Yngsta stig og miðstig hefur aðlagað sig breyttum aðstæðum og umferðarreglum um skólahúsnæðið. Í þeirra hópi ríkir vinnugleði og yfirvegun. Sumum finnst skemmtileg tilbreyting að fá að koma með nesti í morgunhressinguna á meðan öðrum finnst reglurnar full margar. Á hverjum degi er útivera og einnig sér Lína íþróttakennari öllum hópum fyrir smá sprikli í kennslustofu eða úti.

Unglingakennarar tóku ígrundaða ákvörðun um að byrja fyrstu skref fjarkennslu/fjarnáms út frá því námsumhverfi sem nemendum er nú þegar kunnugt. Hvert næstu dagar leiða okkur er ómögulegt að segja til um. Ein tilraun var gerð í dag með stærðfræðitíma “í beinni” með hjálp meet.google.com hjá 7.-8. bekk sem gekk afskaplega vel og tók meirihlutinn virkan þátt.  Stóra áskorun unglingastigs er að finna taktinn í fjarvinnu. Á skóladegi unglinganna í gær var tíminn nýttur til leiðbeininga varðandi fyrirkomulag námsins næstu daga og merkja má að nemendur eru að eflast í markvissari samskiptum við kennara. 

Í næstu viku verða 2 skóladagar fyrir 7.-9. bekk og þrír skóladagar fyrir 10. bekk. Kennarar senda nánari upplýsingar á hópana. Yngsta stig mætir alla daga í skólann og miðstig mætir alla daga nema miðvikudag. Unglingastigið í heild mætir á miðvikudag.

 Við höfum áform um að miðla reglulega fréttum af skólastarfinu á þessum skrýtnu tímum. Vonandi náum við halda sambærilegu skólastarfi áfram næstu daga og vikur.

Fylgist endilega með okkur.