Gaman saman, samstarfsverkefni leikskólans Birkilundar og Varmahlíðarskóla, er komið á fullt. Löng hefð er fyrir þessu samstarfi skólanna, en það byggir á gagnkvæmum heimsóknum allan veturinn. Vikulega hittast börnin í skólahópi leikskólans og nemendur 1. bekkjar Varmahlíðarskóla, til skiptist í skólunum. Yfir skólaárið fara skólahóps börnin einnig í heimsóknir í alla bekki grunnskólans og nemendur allra bekkja skólans heimsækja leikskólann. Margt er sér gert til gagns og gamans í þessum heimsóknum. Í haust er skólahópurinn búinn að fá kynningu á skólanum okkar, ganga um hann allan, sjá kennslurými, starfsemi og aðstæður sem og hitta nemendur og starfsfólk. Það var gaman að sjá hve þessum góðu gestum okkar var vel tekið alls staðar. Þá er hópurinn búinn að fá kynningu á skólalóðinni okkar og leiksvæðinu hér umhverfis. Í leikskólaheimsóknum haustsins höfum við skemmt okkur vel við frjálsan leik inni sem og úti. Meðal annars er búið að drullumalla, búa til áveituskurði og fleira skemmtilegt. Nú á dögunum gerðu krakkarnir tilraun saman hér í skólanum, þar sem athugað var hvort hægt væri að mála á svart karton með saltvatni. Niðurstaðan kom skemmtilega á óvart.
Nemendur 10. bekkjar buðu skólahópnum upp á spilatíma með margvíslegum spilum og áttu einnig góða stund með þeim í leikskólanum.
Þetta samstarf er stór og mikilvægur þáttur í skólastarfinu, þar sem aðal markmiðið er að halda félagslegum tengslum og brúa bilið milli skólastiga. Það eru mörg spennandi verkefni framundan hjá okkur í vetur.