Gjöf til Hjálparstarfs kirkjunnar

Kristinn Örn Guðmundsson, séra Dalla Þórðardóttir, séra Gísli Gunnarsson og Lydía Einarsdóttir við a…
Kristinn Örn Guðmundsson, séra Dalla Þórðardóttir, séra Gísli Gunnarsson og Lydía Einarsdóttir við afhendingu gjafar til Hjálparstarfs kirkjunnar frá nemendum og starfsfólki Varmahlíðarskóla.

Litlu jólin voru haldin hátíðleg í Varmahlíðarskóla í morgun. Að þessu sinni var ákveðið að hafa ekki hefðbundin pakkaskipti og þess í stað lagt til að við sem í skólanum störfum, bæði starfsfólk og nemendur, létum gott af okkur leiða með söfnun til góðgerðarmála. Fyrir valinu varð að styrkja að þessu sinni Hjálparstarf kirkjunnar með gjöf til þeirra sem minna mega sín. Nemendur í stjórn nemendafélagsins tóku síðan ákvörðun um að óska þess að fénu yrði varið að hluta til alþjóðlegs hjálparstarfs, til kaupa á vatnstanki og 5000 trjám og það sem safnaðist umfram það verði veitt til hjálparstarfs innanlands. Margt smátt gerir eitt stórt.

Lydía Einarsdóttir og Kristinn Örn Guðmundsson, formenn nemendafélagsins afhentu séra Döllu Þórðardóttur og séra Gísla Gunnarssyni gjöfina að viðstöddum nemendum 10. bekkjar. Aðrir hópar skólans fylgdust með í beinu streymi, þar sem öllum er hólfaskipt vegna sóttvarnaráðstafana. Heildarupphæðin sem safnaðist var 142.500 krónur.  Gísli og Dalla þökkuðu kærlega fyrir fallega gjöf. Þau sögðu frá því að gjöfin kæmi sér afskaplega vel við að veita þeim hjálp sem eru hjálparþurfi og hrósuðu fyrir fallegt hjartalag. 

Við erum sannfærð um að þetta sé gjöf sem gefur á báða bóga og þökkum fyrir góða þátttöku og samstöðu nemenda og starfsfólks við söfnunina.