Glóðey og Eldey

Þó að ljúft sé að láta sig dreyma um fjarlæg og fögur ævintýralönd er ekki víst að vistin þar verði hreint ævintýri. Að minnsta kosti gæti þurft að leysa úr vandamálum, t.d. gæti þurft að byggja hús, afla matar og svo gæti líka verið nauðsynlegt að finna sér vinnu í framhaldinu. Allt þetta gæti þó tekið mörg ár og veltur náttúrulega að nokkru leyti á loftslagi sem og íbúafjölda á hinum nýja stað.

Að undanförnu hafa nemendur í 5. og 6. bekk fengist við það verkefni að láta hugann reika á þessum nótum. Hópurinn fór í ferðalag og fann eyju til þess að búa á en þurfti svo að huga að því hvernig lífið væri á nýja staðnum. Hver og einn þurfti að hanna hús, það þurfti að huga að matvælum og geymslu þeirra, að búfjárhaldi og ræktun, og svo að uppbyggingu innviða.

Í þessari vinnu þurfti því að hugsa margt upp á nýtt og að sjá lífið frá annarri hlið. Að ferðalokum buðu nemendur svo gestum til þess að sjá hið nýja land sem málað hafði verið í veggstærð og heyra og sjá það sem nemendur höfðu búið til á þessari ævintýraför.