Heilsueflandi dagar haustsins

Hreyfidagarnir voru haldnir í upphafi skóla 25. - 27. ágúst í blíðskaparveðri. Nemendur fengu að kynnast hinum ýmsu íþróttagreinum bæði í Varmahlíð og Sauðárkróki. Á Króknum var farið í sund, pílu, júdó og körfubolta og nýttum við okkur aðstöðuna í Litla-Skógi til að matast sem og leikvöllinn fyrir utan Árskóla. Fyrrverandi nemandi kom í heimsókn og kynnti fyrir okkur glímu og allskonar glímutækni eins og hryggspennu. Farið var í gönguferð að Grófargilsánni, týnd voru ber og leikið sér í ánni, farið var á kajak í sundlauginni og leiki úti. Þökkum kærlega fyrir góðar móttökur.

Ólympíhlaup ÍSÍ var farið þriðjudaginn 23. september þar sem nemendur höfðu val um að hlaupa 5 eða 10 km. Gaman er frá að segja að nemendur stóðu sig mjög vel og hlupu samtals 703 km, sem er 7,1 km að meðaltali. Allir enduðu síðan í sundi. Varmahlíðarskóli hefur tekið þátt í þessu hlaupi eins lengi og elstu menn muna.

Verkefnið Mílan snýst einfaldlega um að ganga eina mílu eða 1,6 kílómetra. Stefnt er að því að ganga míluna reglulega í vetur.