Hildarselsferð 9. og 10. bekkur

Lagt er upp frá Varmahlíðarskóla að morgni og haldið sem leið liggur í Skatastaði. Þaðan arka nemendur niður að Austari-Jökulsá, sem niðar straumþung undir kláfnum, sem ferjar fólkið á austurbakkann.

Margir höfðu miklað kláfinn fyrir sér og kviðu ferðalaginu - en þegar á hólminn var komið - eða öllu heldur í kláfinn komið - var ferðalagið ekki eins ógnvænlegt og haldið var. Veður var með miklum ágætum - gola og hiti um 20 stig.

Frá Skatastöðum er gengið að Ábæ og stoppað þar stund; nestið borðað og hugurinn látinn reika til þeirra er þar tróðu traðir forðum.

Frá Ábæ er svo arkað áleiðis í Hildarsel (gangnaskála Nýjabæjarafréttar) með stoppum á völdum eyðibýlarústum. Má þar nefna Svartabakka, Ófriðarstaði, Tinnársel og Nýjabæ sem dæmi. Þar er sagan skrifuð í hvert fótmál og fararstjóri rifjar upp atburði eins og bardaga Eyfirðinga og Skagfirðinga, þar sem Skagfirðingar höfðu betur (að sjálfsögðu).

Eftir drjúga göngu er komið í Hildarsel og göngufólk losnar við klyfjar sínar - sem voru farnar að síga í hjá mörgum.

Í boði er að ganga frá Hildarseli fram í Fögruhlíð - sem er sá skógur náttúrulegur sem vex í hvað mestri hæð á Íslandi.  Um helmingur nemenda rölti þá leið og naut náttúrufegurðar - og bætti þar með við göngu sína u.þ.b. 12 - 14 kílómetrum.

Flestir sem ferðina fóru voru ánægðir í dagslok og heimferðin daginn eftir gekk að óskum; bakpokarnir léttari og heldur hallaði undan fæti.