Hápunktur dagsins var draugagangurinn sem 10. bekkur setti upp þar sem nemendur og starfsfólk fengu að ganga í gegnum myrka herbergjakima og upplifa sannkallað hrekkjavökuævintýri. Þar mættu þeim draugar, dularfull hljóð og ýmsar verur sem sáu um að halda adrenalíninu á lofti! Hrekkjavaka er skemmtilegur siður sem margir nemendur hlakka til ár hvert. Hún býður upp á sköpun, leikgleði og ímyndunarafl, og er frábært tækifæri til að brjóta upp hefðbundinn skóladag og njóta saman góðrar stemningar.
Eftir hádegið fengum við heimsókn frá Skáld í skólum til nemenda á unglingastigi. Rithöfundarnir Bergrún Íris og Elísabet Thoroddsen voru með fyrirlestur um bækur og fóru um víðan völl. Þær sögðu frá mest bönnuðu bókum heims, hvaða bækur hafa verið brenndar á báli, tenging samfélagsmiðla við rithöfunda og bókaútgáfur og hvort gervigreind geti skrifað og teiknað betur en mannfólkið.
Við enduðum daginn á söngstund þar sem nemendur og starfsfólk tóku vel undir. Einnig voru afhentir farandbikarar til þeirra bekkja sem hlupu lengst að meðaltali í Ólympíuhlaupinu. Alls hlupu nemendur Varmahlíðarskóla 730 kílómetra sem er frábær árangur. Tveir bekkir hlupu flesta kílómetrana; nemendur í 6.bekk hlupu 8.5 kílómetra að meðaltali og nemendur í 8.bekk hlupu 8.6 kílómetra að meðaltali og fengu þessir tveir bekkir farandbikar. Til hamingju!!
Við þökkum 10. bekk sérstaklega fyrir frábæran draugagang og öllu starfsfólki og nemendum fyrir að taka þátt af krafti og gera daginn eftirminnilegan.