Jólaljós og aðventa

Það er orðin hefð fyrir því í Varmahlíðarskóla, við upphaf aðventu, að allir nemendur og starfsfólk fari út, telji niður og tendri jólaljós á trénu við skólann. Á sömu stundu er kveikt á ártali og stjörnu á Reykjarhólnum. Ljósin voru tendruð í dag og stundin var notaleg þrátt fyrir að við mættum ekki safnast öll saman í einn hóp vegna sóttvarnarráðstafana. Hóparnir voru þrískiptir eins og í skólastarfinu hjá okkur þessa dagana og héldu sig í hæfilegri fjarlægð hver frá öðrum. Stefán R. Gíslason lék á harmonikku og jólalögin voru sungin dátt. Nemendur áttu síðan notalega stund í kennslustofum og fengu mandarínur og piparkökur. 

Nemendur unglingastigs hafa veitt kærkomið liðsinni við undirbúning aðventu. Takk fyrir hjálpina krakkar! Í gær var hópurinn tvískiptur og hengdi hluti hópsins upp hinar ómissandi gluggamyndir í matsal og setustofu skólans á meðan hinn hópurinn bar upp í Reykjarhólinn ljósaártalið 2020/2021 og kom því fyrir. Einar Örn (Orri okkar) vélsmíðakennari á heiðurinn af því að smíða ártalið og lagfæra á hverju ári í samvinnu við nemendur og Guðmund húsvörð. Það er talsverð fyrirhöfn að koma ártalinu upp í hólinn og án liðsinnis nemenda og góðrar samvinnu væri það ekki gerlegt. Skógurinn vex ört og vakna sterkari vangaveltur með hverju árinu hvort finna þurfi ártalinu annan stað þegar fram líða stundir. Þess má einnig geta að gluggamyndirnar eiga sér ansi langa sögu og geyma góðar minningar fyrrum nemenda og jafnvel minningar foreldra núverandi nemenda í skólanum. Það er einmitt þetta sem er svo ómissandi. Okkur hlýnar mörgum um hjarta við að sjá myndirnar og fallegan jólaboðskap þeirra og jólaljósa á þessum árstíma.

Framundan á aðventu er tími sem við tengjum ótalmörgum hefðum. Jólahefðum sem í huga okkar getur verið erfitt að víkja frá og jafnvel óhugsandi. Það verður áskorun næstu daga og vikna að endurskoða hefðbundin plön desembermánaðar. Desember verður ekki eins og við eigum að venjast. Við hvetjum til að sjónum sé beint að því sem gleðjast má yfir, gleðjumst með okkar nánustu, leggjum rækt við kærleika en gætum sóttvarna til hins ítrasta. Njótið aðventunnar.