Jólatré sótt í Reykjarhólsskóg

Í morgun fóru nemendur 4. bekkjar í skógarferð í Reykjarhólsskóg ásamt kennara, húsverði og stuðningsfulltrúa. Erindið var að fella og sækja jólatré sem prýða mun stétt skólans á aðventu. Börnin voru vel búin þegar lagt var af stað í rökkrinu, klædd í hlýjan fatnað með vasaljós í farteskinu. Mannbroddar voru á fótum starfsfólks og líka nokkurra nemenda vegna hálkunnar í skóginum. Eftirvænting skein úr andlitum barnanna og á leiðinni, við leitina að trénu, var staldrað við og sjónum beint að trjátegundum og fleiru sem á vegi okkar varð. Nemendur felldu fallegt rauðgrenitré og í góðri samvinnu var tréð borið niður að skóla. 

Þetta er í annað sinn sem við förum sjálf og sækjum okkur tré í skóginn. Við sjáum fyrir okkur að með tímanum festist þessi hefð í sessi að elstu nemendur yngsta stigs (4. bekkur) fái þetta skemmtilega verkefni við upphaf aðventu. Útiveran í skóginum á þessum árstíma er öðruvísi auk þess sem hugtakið “okkar tré” fær aukna merkingu. 

Að leiðangri loknum þótti hópnum gott að ylja sér með rjúkandi heitum kakóbolla og piparköku. Skógarferðin tókst vel og það rættist heldur betur úr veðrinu miðað við útlit morgunsins, það er svo dásamlegt að það er alltaf logn í skóginum. Allir nutu útiverunnar, skógarins og góðrar samveru.