Lestrargestir

Það er kominn gestur er oft sagt með tilhlökkun í rómi, enda fylgir þá oft tilbreyting eða fjör. Gera má ráð fyrir að sagðar séu sögur eða tíðindi flutt frá öðrum stöðum. Þegar lestrargestir birtast er svipað upp á teningnum. Þeir spjalla um bækur, segja frá reynslu sinni af bóklestri, kynna nýja heima fyrir lesendum og benda á hvernig bækur geta fylgt kynslóðum og varðveitt æsku þeirra. Þótt ungir lesendur samtímans hugsi kannski ekki mikið um æsku sína í augnablikinu er eins víst að eftir ár og dag leiti hugurinn heim á fornar slóðir og hver veit nema þá blasi við gömul og góð bók sem geymir sögur sem virtust löngu gleymdar en hafa þó lifað í undirmeðvitundinni alla tíð.