Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var þann 17. mars

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekkjum grunnskólanna í Skagafirði fór fram í bóknámshúsi FNV þann 17. mars. sl. í tuttugasta sinn. 

Laufey Leifsdóttir hefur haft umsjón með henni fyrir hönd Sveitarfélagsins Skagafjarðar undanfarin ár í samstarfi við Raddir, sem eru samtök um vandaðan upplestur og framsögn.

Þrettán keppendur ásamt fjórum varamönnum mættu til leiks og allir stóðu þeir sig með mikilli prýði. Keppendur lásu brot úr sögunni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk, ásamt ljóði að eigin vali. 

Úrslit voru sem hér segir:  Í fyrsta sæti var Lilja Dögun Lúðvíksdóttir, nemandi í Árskóla, í öðru sæti var Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir, nemandi í Grunnskólanum austan Vatna og í þriðja sæti var Bríet Bergdís Stefánsdóttir,   héðan úr Varmahlíðarskóla.

Á meðan beðið var eftir úrslitum fluttu nemendur Tónlistarskóla Skagafjarðar tónlistaratriði.

Dómarar að þessu sinni voru Þórður Helgason, Guðný Zoëga, Guðbjörg Bjarnadóttir og Svanhildur Pálsdóttir.