Maraþon

Sumir dagar eru lengri en aðrir, a.m.k. í minningunni. Eins geta tímabil liðið misjafnlega hratt. Tímabilið frá jólum og fram til páska hefur flogið hjá. Margt getur hafa haft áhrif á það. Til dæmis veðrið, langar stillur með töluverðu frosti, sem er óvanalegt hér og hefur það kannski gert það að verkum að dagarnir hafa verið hver öðrum líkir og því hafa þeir kannski horfið hraðar á braut en ella. Margt hefur þó verið um að vera á tímabilinu. Umfram allt hefur það þó verið daglegt nám sem fram hefur farið dag hvern þó svo að af og til sé skipt um takt, t.d. í kringum árshátíðir. Undir lok þessarar námslotu fóru nemendur 10.bekkjar í íþróttamaraþon samkvæmt hefð og fundu þá eins og aðrir maraþonhlauparar að fátt skiptir meira máli en að undirbúa sig vel og að halda jöfnum takti. Þannig komast allir í mark og geta glaðst yfir sigrum sínum en þeir eru fjölmargir í lífinu sem í sjálfu sér er ekkert annað en maraþon.