Myrkur

Í myrkrinu getur verið gaman að horfa til himins og sjá þar stjörnur og plánetur og velta fyrir sér óravíddum alheimsins. Margt er þar ókannað, eins og reyndar í okkar nærumhverfi, en það er eitthvað heillandi við hið óþekkta og dularfulla sem blasir við okkur á stjörnubjörtum kvöldum. Nemendur á yngsta stigi eru um þessar mundir að kynna sér himingeiminn.

Þær upplýsingar sem við höfum um þennan fjarlæga hluta tilverunnar eru kannski ekki meira en eitt og annað smálegt um hitastig, fjarlægðir og vangaveltur um hvort líf þrífist þar eður ei. Hluti af þessum vangaveltum tengist stjörnumerkjum og stjörnuspám sem oft eru gefnar út sem forspá um daglegt líf og geta ýmist verið leiðarljós eða skemmtiefni eftir því hvernig á er litið.