Það er eitthvað einstaklega notalegt og dularfullt við það að fara í rökkurgöngu á þessum árstíma þegar myrkið er allsráðandi og jólin nálgast.
Nemendur í 1. til 10. bekk og starfsfólk skólans áttu eftirminnilega stund þegar haldið var í rökkurgöngu í Glaumbæ, gamlan torfbæ sem geymir ríka sögu. Þar fengum við að upplifa sannkallað tímaflakk og sjá hvernig lífið var í bænum á aðventunni í gamla daga. Starfsfólk Glaumbæjarsafns tók frábærlega á móti hópnum og bauð upp á fjölbreytta dagskrá sem höfðaði til allra aldurshópa.
Nemendur fengu að kynnast hvernig tólgarkerti voru búin til, sem var ómissandi hluti af myrku skammdegi, fróðleik um hvernig matur var eldaður í gamla daga, fengu tækifæri til að smakka tvíreykt hangikjöt og hlýddu á fróðlegar sögur um gamlar íslenskar jólahefðir. Svo var notaleg stund þar sem sköpunargleðin réð ríkjum og nemendur fengu að skreyta piparkökur og gátu yljað sér á heitu súkkulaði í Áshúsi. Ferðin var ekki aðeins skemmtileg heldur einnig ómetanleg viðbót við kennsluna, sem veitti nemendum dýrmæta innsýn í íslenskan menningararf. Skólinn þakkar kærlega starfsfólki Glaumbæjarsafns fyrir frábærar móttökur og ógleymanlega heimsókn!