Skólastarf á veirutímum

Hádegismatur í kennslustofu
Hádegismatur í kennslustofu

Í dag tókum við stjórnendur stutta fjarfundi með kennurum hvers stigs fyrir sig og fórum yfir hvernig kennslu er háttað. Segja má að kennarar séu almennt ánægðir hvernig til hefur tekist þessa daga sem liðnir eru. Auðvitað eru áherslur ólíkar eftir aldri nemenda.

Kennsla yngri nemenda er alla daga í skólanum. Þeir nemendur á yngra stigi sem sinna námi sínu heima fá leiðsögn kennara með áætlunum og aðstoð foreldra heima. Kennarar yngri nemenda hafa boðið þeim nemendum sem heima eru að hitta bekkjarfélagana í fjarfundaformi en eins og gefur að skilja hentar það ekki ungum nemendum að vera í sambandi við bekkinn sinn allan daginn í gegnum tæki og þess vegna verður ekki hjá því komist að félagslegi þáttur námsins standi út af að einhverju leyti.

Nemendur í eldri námshópum koma sjaldnar í skólann og sinna stórum hluta síns náms heima. Kennarar þeirra hafa verið öflugir í að bjóða nemendum upp á fjölbreytt samskipti við sig. Að sögn kennaranna hafa flestir nemendur á eldra stigi verið duglegir að sinna námi sínu. Það er alveg ljóst að við aðstæður sem þessar reynir mikið á hvern og einn einstakling. Nemendur bera fyrst og fremst sjálfir ábyrgð á því að sinna þeim verkefnum sem fyrir þá er lögð. Með samstarfi og þrautseigju förum við í gegnum þessa óvenjulegu tíma reynslunni ríkari.