Skólastarf næstu daga á tíma samkomubanns

Á starfsdegi var skólastarf næstu daga og vikna skipulagt við þær sérstöku aðstæður sem nú eru í samfélaginu. Ekki verður unnt að halda uppi hefðbundnu skólastarfi en út frá núverandi tilmælum um skólastarf og ráðleggingum landlæknis hefur starfinu verið sett umgjörð næstu daga og vonandi vikur. 

Skóladagur hefst kl. 8:15 og lýkur kl. 13:05. Yngsta stig gengur inn um aðalinngang að austan og mið- og unglingastig notar suðurinngang. Aðkomu og brottför barna í og úr skólabílum verður stýrt þannig að hópar skarist ekki. 

Tveimur árgöngum verður kennt saman, að undanskildum tveimur elstu árgöngunum sem verður kennt hvorum fyrir sig þá daga sem þau mæta. Yngsta stig mætir alla daga vikunnar, miðstig mætir 4 daga vikunnar og unglingastig 1 dag. Með þessu er færri börn í senn í skólanum og skólabílunum. Skólabílar aka og gæta sóttvarna samkvæmt ráðleggingum. Þá daga sem eldri nemendur mæta ekki í skólann verður stutt við nám með fjarkennslu. Kennarar senda nemendum og foreldrum frekari upplýsingar um tilhögun þess.

Ekki er hægt að bjóða upp á morgunmat í skólanum og þurfa nemendur að koma með hollt nesti að heiman sem þeir snæða í stofunum. Heimilt er að koma með heilsusamlegan drykk en einnig hægt að fylla á vatnsbrúsana í skólanum. Nemendur fá hádegismat sem verður borinn fram í kennslustofunum. 

Frístund starfar fyrir skráða nemendur í 1.-2. bekk.

Vinsamlega kynnið ykkur upplýsingar og tilmæli frá skóla. Mikilvægt er að fylgjast vel með tölvupósti og heimasíðu skólans þar sem allar helstu upplýsingar verða settar inn eftir þörfum. Mögulega verða breytingar á skipulagi skólans næstu daga. 

Aðgengi að skólanum verður takmarkað og eru foreldrar beðnir um að koma ekki inn í skólann þegar þeir fylgja börnum sínum í skólann eða sækja þau.

Mikilvægt er að tilkynna veikindi til skólans eða ef barn eða fjölskylda fer í sóttkví. Einnig óskum við eftir því að foreldar láti vita ef þeir ákveða að halda börnum sínum heima eða nýta ekki frístund.

Við höfum verið minnt á að við gegnum öll mikilvægu hlutverki í almannavörnum. Verum meðvituð í samskiptum og sóttvörnum. Við stjórnendur erum afar þakklát starfsfólki og ykkur foreldrum fyrir stuðning og velvilja við núverandi aðstæður. Stóra sameiginlega verkefni okkar verður að vera að hlúa sem best að hverjum og einum einstaklingi. Tökum höndum saman af ró og yfirvegun.

Stjórnendur Varmahlíðarskóla