Stóra upplestrarkeppnin í Skagafirði

Stóra upplestrarkeppni 7. bekkinga í Skagafirði fór fram í gær við hátíðlega athöfn. Keppnin var haldin í bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki. Að sögn Þórðar Helgasonar, formanns dómnefndar, var keppnin jöfn og verkefni dómara margslungið. Niðurstaðan var sú að Iðunn Kolka Gísladóttir, nemandi Varmahlíðarskóla hreppti fyrsta sætið.  Í öðru og þriðja sæti voru nemendur úr Árskóla, Helgi Sigurjón Gíslason og Lára Sigurðardóttir. Við óskum þeim hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Nemendur lásu textabrot úr skáldsögunni Hingað og ekki lengra! eftir Hildi Knútsdóttur og Þórdísi Gísladóttur. Þau lásu einnig valin ljóð eftir Sigurð Pálsson og eitt ljóð að eigin vali.  

Allir lesarar og varamenn stóðu sig afskaplega vel og fengu  í lok athafnar viðurkenningarskjal, rós og bókina Hingað og ekki lengra!

Keppendur frá fyrra ári stýrðu samkomunni og flutt voru tónlistaratriði frá nemendum Tónlistarskóla Skagafjarðar, austan Vatna. Einnig var boðið var upp á kaffihressingu.