Þorrablót eru gömul hefð sem var vakin aftur til lífsins á 19. öld. Þá kemur fólk saman, borðar góðan mat, syngur og skemmtir sér til að stytta biðina eftir vorinu.
Maturinn sem við borðum á þorrablótum er í raun geymsluaðferðir forfeðra okkar. Áður en ísskápar voru fundnir upp þurfti að geyma matinn í salti eða súr (mysu).
Þorri er fjórði mánuður vetrar samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Hann byrjar alltaf á föstudegi í 13. viku vetrar (á tímabilinu 19. til 25. janúar).
Fyrsti dagur þorra er Bóndadagur. Í gamla daga var það siður bænda að bjóða þorra velkominn með því að fara út, klæddir í aðeins eina brókarskálm, og hoppa í kringum bæinn. Spurning hvort einhverjir nýti þennan gamla sið enn í dag.
Í dag, 28. janúar, var haldið þorrablót hjá okkur. Þá komu allir saman í matsalinn, sungu fjögur lög saman og borðuðu svo góðan þorramat og var gaman að fylgjast með hversu duglegir nemendur voru að smakka þorramatinn.
Einnig var gamaldags fatnaður hafður í hávegum í dag og mættu nemendur og starfsfólk í hinum ýmsu fötum sem tengjast gömlum tímum.