Varmahlíðarskóla afhent gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækjum

Í gær var Varmahlíðarskóla færð gjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og dótturfyrirtækjum. Skólinn fékk afhentan þrívíddarprentara af gerðinni MakerBot Replicator+ ásamt skanna og þrívíddarforritunum MakerBot Print og MakerBot Mobile. Tækin eru af nýjustu gerð. Bjarni Maronsson, stjórnarformaður KS, afhenti gjöfina og sagði tilganginn vera að kynna þessa nýju tækni fyrir ungu fólki. ,,Hugurinn sé eina takmörkunin á því sem svona tæki geta gert og munu geta gert í framtíðinni.” Hanna Dóra skólastjóri tók við gjöfinni og þakkaði hjartanlega fyrir rausnarlega gjöf til skólans sem mun svo sannarlega styðja vel við fjölbreytileika skólastarfsins. Það verði spennandi að koma tækinu í notkun og sjá hvernig það efli enn frekar frjóa hugsun nemenda í nýsköpun og hönnun. Einnig þakkaði Hanna Dóra Kaupfélagi Skagfirðinga fyrir öflugan stuðning síðustu ár sem hafi átt ríkan þátt í að styðja við framsækið skólastarf.