Sveitadagar

Verkefnið Sveitadagar að vori byggir á margra ára hefð sem þróast hefur með tíð og tíma allt frá árinu 1994. Tilgangur þess er m.a. að mæta sérstöðu skóla í dreifbýli, en Varmahlíðarskóli er skilgreindur sem sveitaskóli í nútímasamfélagi og leggur sig fram um að vera trúr því hlutverki. Stærstur hluti nemenda kemur úr dreifbýli. Við leggjum áherslu á að skólastarf sé sveigjanlegt og geti lagað sig að viðfangsefnum sem hæst bera í heimahéraði hverju sinni.

Verkefni Sveitadaga felur í sér samvinnu foreldra og skóla, þar sem foreldrar taka nemendur heim á bæi. Nemendur eru þessa daga við störf heima á bæjum og þeir nemendur sem ekki búa í sveit fá inni hjá skólafélögum, vinum og vandamönnum. Nemendum er ætlað að sinna fjölbreyttum vorverkefnum sem til falla s.s. að aðstoða við sauðburð undir handleiðslu foreldra. Að auki halda nemendur dagbók og vinna verkefni sem eru breytileg eftir aldri, geta verið athugun á veðri, búskaparháttum, fuglaskoðun, eða útreikningur kostnaðarliða einhvers í rekstri búsins. Matsblað er sent með nemendum sem bændur fylla út að Sveitadögum loknum. Nemendur skila dagbók, matsblaði og verkefnum sínum til umsjónarkennara.

Verkefnið Sveitadagar að vori hlaut viðurkenningu samtakanna Heimili og skóli vorið 2013. Foreldrar hafa verið afskaplega ánægðir í sínum umsögnum um verkefnið. Samvinna foreldra hefur verið dýrmæt enda er þátttaka foreldra lykilatriði í verkefninu, án þeirra liðsinnis væri þetta ekki framkvæmanlegt. Sveitadagarnir eru lýsandi dæmi um það hverju samstaða heimila og skóla getur áorkað.
Að mati okkar skólastarfsfólks er verkefnið Sveitadagar fyrirmyndar samþættingarverkefni.

Síðasta vor féllu Sveitadagar niður. Eftir viðhofskönnun meðal foreldra á framkvæmd sveitdaga hefur verið ákveðið að Sveitadagar verði haldnir í vor og merkjum við eftirvæntingu um að svo geti orðið. Sveitadagar eru samkvæmt skóladagatali dagana 10.-14. maí í 4 daga, fimmtudaginn 13. maí er uppstigningardagur og frí í skólanum.