Nýsköpunarkeppni 5. bekkjar

Þó að ekkert sé nýtt undir sólinni og margir gleðjist yfir því að hafa hjá sér ýmislegt gamalt og gott er rétt að benda á að fæst af því gamla og góða hefur verið þar frá öndverðu. Einhverjum datt í hug að bæta einu og öðru við umhverfi okkar til þess að létta okkur hversdagslífið. Flestir nota t.d. hjól í sínu daglega lífi án þess að hugleiða að það er uppfinning einhvers sem vildi sér og öðrum vel.

Þó að við rekumst á vandamál í okkar daglega lífi leysum við það ekki alltaf, enda eru ekki allir uppfinningamenn. En hver sem er getur þó fengið hugmynd sem má máta við veruleikann og sjá hvað öðrum finnst um lausnina.

Nemendur 5.bekkjar tóku þátt í eins konar æfingabúðum uppfinningamanna í vikunni. Verkefnið kallast Nýsköpunarkeppni 5.bekka í Skagafirði og stýrði Ingvi Hrannar Ómarsson því. Hann dvaldi eina dagsstund í hverjum skóla og sýndi nemendum ýmsar gamlar og góðar uppfinningar sem komist hafa á markað og eru orðnar vel þekktar.

Eftir að ýmsar uppfinningar höfðu verið kynntar og nemendum varð ljóst að fjölmargt gott og nytsamlegt hafði verið búið til eftir hugmyndum frá börnum fylltust þeir sköpunarkrafti og hófu að teikna upp margs konar hugmyndir sem gætu einfaldað hversdagslíf, gert tómstundir skemmtilegri eða létt bústörf.

Hluti af verkefninu fólst í því að ræða hugmyndir sínar við aðra og að fá ábendingar um kosti þeirra og galla. Það er list að geta sagt kost og löst á hugmynd og þó að það lærist ekki til fulls á einum degi er það góð æfing í því að virða náungann og að hvetja hann til góðra verka með nytsamlegum ábendingum um það sem betur mætti fara.

Megintilgangur verkefnisins var sá að æfa fólk í því að varpa fram hugmyndum, að útfæra þær, að ræða kosti þeirra og galla, að geta endurskoðað, breytt og bætt og komist að niðurstöðu sem nýtist sem flestum. Með öðrum var þetta því æfing í því að sjá heiminn frá sem flestum hliðum og að muna að þó að hugmyndin gangi ekki upp má alltaf byrja upp á nýtt því að sólin kemur alltaf aftur upp og nýr dagur ber með sér ný tækifæri. 

Nýsköpunarkeppni 5. bekkjar