Fyrirlestur um mikilvægi sjálfsmyndar

Bjarni við eina af glærum sínum
Bjarni við eina af glærum sínum

Bjarni Fritzson er afreksmaður í handbolta og meistaranemi í sálfræði. Bjarni fer um landið ásamt Kristínu Tómasdóttur, rithöfundi og sálfræðingi og heldur fyrirlestra fyrir drengi um mikilvægi góðrar sjálfsmyndar í lífinu. Meðal annars ræddi hann um misvísandi skilaboð í umhverfinu varðandi til hvers er ætlast af drengjum og mönnum í dag. Strákarnir í 9. og 10. bekk hlustuðu andaktugir á fyrirlestur Bjarna og sköpuðust góðar umræður um efnið. Fleiri myndir hér.

Kristín hitti stelpurnar og ræddi um styrkingu sjálfsmyndarinnar. Kristín Tómasdóttir er með BA-próf í kynjafræði og sálfræði og hefur unnið mikið með unglingsstúlkur og sjálfsmynd. Kristín hefur gefið út þrjár fræðslubækur fyrir stelpur og haldið fyrirlestra í skólum og félagsmiðstöðvum um allt land.

„Frá því ég var sjálf unglingur hef ég furðað mig á því hvað það var stundum erfitt að vera ung en jafnframt ótrúlega spennandi og skemmtilegt“ segir Kristín um það af hverju hún byrjaði að vinna með þetta viðfangsefni.

„Ég hef á undanförnum 8 árum unnið mikið með ungu fólki og byrjaði að skrifa bækur fyrir unglingsstelpur árið 2010 þegar fyrsta bókin mín Stelpur! kom út. Síðan þá hef ég einnig skrifað bókina stelpur A-Ö árið 2011 og bókina Stelpur geta allt árið 2012.“ Allar bækur Kristínar hafa selst ótrúlega vel og fengið frábæra dóma.

Um jólin kemur svo út önnur bók eftir Kristínu og kollega hennar Bjarna Fritzson sem er ætluð unglingum af hinu kyninu, strákunum.

Hvaða þættir hafa mest áhrif á sjálfsmyndina?
„Það eru ótrúlega margir þættir sem geta haft mótandi áhrif á sjálfsmynd okkar. Í rauninni er það allt sem við tökum okkur fyrir hendur, skiptir okkur máli, er okkur erfitt, skemmtilegt eða eftirsóknavert“ segir Kristín.

„Fjölskyldan hefur alltaf mikil áhrif á sjálfsmynd okkar, hvort sem við komum frá góðum eða slæmum fjölskyldum áhrifin eru alltaf einhver bæði jákvæð eða neikvæð.“

Kristín bendir á að á unglingsárunum geta einnig vinir, ástarmál, fjármál, kynþroski, áhugamál, heilsa, kynlíf og útlit haft mikil áhrif.

(Bleikt.is)