20.12.2025
Við sendum nemendum, foreldrum, starfsfólki og öllum vinum skólans okkar hlýjar og kærleiksríkar jólakveðjur.
Á aðventunni gefst tækifæri til að staldra við, gleðjast saman og njóta þess sem skiptir mestu máli – samveru, hlýju og gleði.
Við þökkum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Megið þið eiga notalega jólahátíð.
Skólinn hefst aftur eftir jólafrí mánudaginn 5. janúar kl. 10.
Gleðileg jól!
Lesa meira
18.12.2025
Föstudaginn 12. des. sl. fengu nemendur 10.bekkjar að spreyta sig við að baka og steikja danskt jólabakkelsi. Tilefnið var að brjóta aðeins upp dönskukennsluna á aðventu.
Nemendur fóru inn á danska baksturssíðu og völdu sér uppskriftir. Skilyrðið var að það væru danskar uppskriftir af hefðbundnu dönsku bakkelsi og nemendur læsu uppskriftir og leiðbeiningar á dönsku. Baksturinn þótti heppnast vel og voru allir ánægðir með afraksturinn.
Meðal þess sem bakað var voru vanillukransar, danskar kleinur og súkkulaðibitakökur.
Var Kristvina Gísladóttir nemendum og umsjónarkennara til ráðlegginga og aðstoðar. Er henni þakkað kærlega fyrir aðstoðina.
Lesa meira
17.12.2025
Föstudaginn 12. desember sl. var Söngkeppni Friðar haldin í Miðgarði - fyrir fullum sal.
Á meðal þeirra níu atriða sem flutt voru, áttu þær Ólöf Helga og Sigurbjörg Svandís það sem lenti í þriðja sæti.
Þær stöllur fluttu lagið The night we met með Lord Huron - sem þær sungu raddað.
Óskum þeim til hamingju með árangurinn.
Lesa meira
17.12.2025
Það er eitthvað einstaklega notalegt og dularfullt við það að fara í rökkurgöngu á þessum árstíma þegar myrkið er allsráðandi og jólin nálgast.
Nemendur í 1. til 10. bekk og starfsfólk skólans áttu eftirminnilega stund þegar haldið var í rökkurgöngu í Glaumbæ, gamlan torfbæ sem geymir ríka sögu. Þar fengum við að upplifa sannkallað tímaflakk og sjá hvernig lífið var í bænum á aðventunni í gamla daga. Starfsfólk Glaumbæjarsafns tók frábærlega á móti hópnum og bauð upp á fjölbreytta dagskrá sem höfðaði til allra aldurshópa.
Nemendur fengu að kynnast hvernig tólgarkerti voru búin til, sem var ómissandi hluti af myrku skammdegi, fróðleik um hvernig matur var eldaður í gamla daga, fengu tækifæri til að smakka tvíreykt hangikjöt og hlýddu á fróðar sögur um gamlar íslenskar jólahefðir. Svo var notaleg stund þar sem sköpunargleðin réð ríkjum þar sem nemendur fengu að skreyta piparkökur og gátu hitað sig á heitu súkkulaði í Áshúsi. Ferðin var ekki aðeins skemmtileg heldur einnig ómetanleg viðbót við kennsluna, sem veitti nemendum dýrmæta innsýn í íslenskan menningararf. Skólinn þakkar kærlega starfsfólki Glaumbæjarsafns fyrir frábærar móttökur og ógleymanlega heimsókn!
Lesa meira
16.12.2025
Þegar dimman tekur völd færist athyglin smám saman á sögur af ýmsu tagi. Oft er talað um rökkursögur sem gleðja fólk eða veita ímyndunaraflinu lausan tauminn. Hversdagslegir viðburðir geta orðið að söguefni og næsta nágrenni verður oft að ævintýraheimi þegar dimman dettur á.
Þegar langt var liðið á nóvembermánuð, nánar tiltekið þann 24., fóru nemendur í 1.-5.b í ferðalag, þó ekki langferð, heldur út í Glaumbæ í svokallaða söguferð. Ferðin hafði verið undirbúin með þeim hætti að bókin Vetrardagur í Glaumbæ var lesin og fengu nemendur þannig innsýn í horfinn heim sem lifnar svo við á síðum bókarinnar. Enn betri tenging við efnið fékkst með heimsókn á staðinn og gátu nemendur þannig gert sér í hugarlund líf fólks á þessum tíma og fengu þeir tækifæri til þess að setja sig í spor þeirra sem sagt var frá.
Ævintýraferðir sem þessar, eða söguferðir eru kærkomin viðbót við lesturinn, enda færist það stöðugt í vöxt að fólk ferðist á söguslóðir þeirra bóka sem það les og veitir það oft góðan skilning á hugsunum persóna og getur skýrt þær ákvarðanir sem þær tóku í bókunum og getur þetta því verið hin besta æfing í því að setja sig í spor annarra.
Lesa meira
16.12.2025
Í síðustu viku tóku nemendur þátt í fjölbreyttri og skemmtilegri danskennslu að hætti danskennarans Ingunnar Margrétar Hallgrímsdóttur. Þar sem áhersla var lögð á hreyfingu, samvinnu og tjáningu. Nemendur æfðu af miklum metnaði alla vikuna og afraksturinn var glæsileg danssýning sem haldin var í íþróttahúsinu.
Á sýningunni komu nemendur fram með fjölbreytta dansa og sýndu bæði hugrekki, sköpunargleði og gleði í hreyfingu. Foreldrar, starfsfólk og aðrir gestir fjölmenntu í íþróttahúsið og nutu þess að sjá afrakstur vinnunnar.
Að danssýningu lokinni tók við jólabingó sem 10. bekkur stóð fyrir sem fjáröflun. Þar var einnig boðið upp á sjoppu með góðgæti og ríkti mikil stemning meðal gesta á öllum aldri.
Samhliða þessu var haldinn bókamarkaður þar sem gestir gátu keypt bækur á 100 krónur stykkið eða fengið bækur að gjöf. Bókamarkaðurinn vakti mikla lukku og margir fóru heim með nýjar bækur í fanginu.
Viðburðurinn í heild var einstaklega vel heppnaður og sameinaði hreyfingu, menningu, lestur og samveru í hlýlegu og hátíðlegu umhverfi.
Lesa meira
08.12.2025
Fimmtudaginn 11. nóvember verður danssýning í íþróttahúsinu kl. 14 og jólabingó hjá 10. bekk strax á eftir í Varmahlíðarskóla.
Það verður sjoppa á staðnum og spjaldið kostar 1.000 krónur.
Enginn posi.
Einnig verður bókamarkaður í anddyri Varmahlíðarskóla. 100 krónur bókin.
Allir velkomnir!
Lesa meira
28.11.2025
Í nóvember fór fram Barnaþingið 2025 í Hörpu, nánar tiltekið 20. nóvember á Mannréttindadegi barna, – stór og mikilvægt ráðstefna þar sem börn alls staðar af landinu koma saman til að ræða málefni sem snerta þeirra daglega líf, réttindi og framtíð. Barnaþingið er vettvangur fyrir börn til að láta rödd sína heyrast, taka þátt í ákvarðanatöku og koma hugmyndum sínum á framfæri við fullorðna sem starfa að málefnum barna. Markmiðið er að efla lýðræðislega þátttöku barna og minna á að skoðanir þeirra skipta máli.
Í ár tóku yfir hundrað börn þátt í fjölbreyttum vinnustofum, samræðum og skapandi verkefnum þar sem rætt var meðal annars um skólamál, tækni, heilsu, umhverfi og jafnrétti. Börnin fengu tækifæri til að hitta sérfræðinga, fulltrúa stjórnvalda og ráðherra.
Við erum einstaklega stolt af því að einn nemandi úr okkar skóla var valinn til að taka þátt í Barnaþinginu en það var hún Rebekka Ýr Ingadóttir í 8. bekk. Hún stóð sig frábærlega, tók virkan þátt í umræðum og lagði sitt af mörkum með hugmyndum, spurningum og áherslum sem endurspegla reynslu og sjónarmið barna í dag.
Það er mikill heiður að fá að taka þátt í Barnaþinginu og frábært tækifæri fyrir börn til að hafa áhrif á samfélagið. Við óskum okkar fulltrúa innilega til hamingju með þátttökuna.
Lesa meira
28.11.2025
Nú líður senn að jólum og fer skólastarfið að litast mikið af því. Í dag, 28.nóvember, kveiktum við á jólaljósum á jólatrénu við skólann. Var það góð stund, þrátt fyrir mikinn kulda. Á eftir var morgunmatur þar sem allir gæddu sér á dýrindis heitu súkkulaði og heitu brauði að hætti matráða.
Lesa meira
26.11.2025
Á haustdögum efndi Mjólkursamsalan (MS) til ljóðasamkeppni meðal nemenda 8.-10.bekkja grunnskóla landsins. Álitleg ljóð voru valin til prentunar á mjólkurfernum, eftir að jólamjólkurfernurnar fjara út.
Nemendur Varmahlíðarskóla voru hvattir til þátttöku - og niðurstaða þess varð sú að Edda Björg Einarsdóttir frá Syðra-Skörðugili var valin ásamt 47 öðrum nemendum víðs vegar af landinu til að fá ljóð sitt birt á mjólkurfernu. Um 1200 nemendur sendu ljóð - svo árangur Eddu er eftirtektarverður. Óskum Eddu til hamingju með árangurinn og hlökkum til að berja ljóðið augum á fernu framtíðarinnar. Hér á eftir gefur að líta ljóðið:
Lesa meira